Ertu ekki viss um hvað þú átt að gera af þér í Reykjavík? Ertu kannski búinn að gera allt sem þú planaðir fyrir ferðina og átt tíma aflögu? Hvað með að kynna þér sögu Íslendinga? Ísland er lítið en merkilegt land og saga þess er bráðskemmtileg. Ef þú ert ekki búinn að fara á söfn í Reykjavík þá viljum við benda þér á nokkra góða möguleika.

Sértu áhugamaður um sögu og menningu Íslands þá er nauðsynlegt fyrir þig að líta á söfn bæjarins. Þjóðminjasafn Íslands er þar efst á lista en þar er farið yfir menningarsögu þjóðarinnar allt frá landnámi til dagsins í dag. Þjóðminjasafnið býður upp á fjölbreyttar sýningar og leiðsögn allan ársins hring ásamt að bjóða upp á hefðbundið íslenskt bakkelsi og drykki á kaffihúsi safnsins. Það er vel þess virði að eyða degi á Þjóðminjasafninu.

Viljirðu upplifa fornbókmenntir Íslendinga á lifandi hátt þá er Sögusafnið á Granda fyrir þig. Þar ertu leiddur í gegnum atburði Íslandssögunnar með hljóðleiðsögn og munt hitta sögufræga Íslendinga eins og Leif Eiríksson og Snorra Sturluson á leið þinni um safnið. Það er stórskemmtileg upplifun þar sem þú hefur einnig möguleika á að klæðast víkingafatnaði og handleika vopn þeirra. Sögusafnið hefur sett á laggirnar 17 sýningar sem eru opnar alla daga.

Perlan er safn sem þú mátt ekki láta framhjá þér fara. Perlan býður upp á einstaka upplifun af náttúru Íslands þar sem þú getur farið inn í manngerðan íshelli sem er kældur niður í tíu stiga frost, lært um jarðskjálfta, eldgos og ýmislegt fleira. Á fjórðu hæð geturðu notið góðra veitinga og skoðað úrval íslenskrar hönnunar í gjafaversluninni. Ekki gleyma útsýnispallinum sem umkringir Perluna og gefur þér einstaka sýn á Reykjavík og nánasta umhverfi. Sýningar Perlunnar, “Undur íslenskrar náttúru” og “Vatn í íslenskri náttúru” eru einstaklega vandaðar og fræðandi. Perlan mun einnig opna spánýtt stjörnuver í nóvember 2018 sem mun eflaust gera upplifunina ennþá magnaðari. Perlan er stórkostleg upplifun sem þú mátt ekki missa af.