Sumarið 2018 – versta sumar Reykjavíkur?

Ísland er einstakt og fallegt og það er enginn vafi á að landið býður upp á stórbrotna og magnaða náttúru sama hvernig viðrar. Þó er hægt að fullyrða að íslendingar eru orðnir langþreyttir á sumrinu 2018. Það sem af er sumars á Íslandi hefur verið kalt og vott og þá sér í lagi í Reykjavík og nánasta umhverfi en sólskinsstundir hafa ekki verið svona fáar í júní mánuði síðan árið 1914. Það virðist ekki vera neitt lát á þessu veðurfari en það sem af er júlí hefur ekki verið til að hrópa húrra fyrir. Hætta er á að sumarið 2018 muni státa af þeim vafasama heiðri að vera versta sumarfrá því að mælingar hófust.

Sökum þessa endalausa haustveðurs hefur verið metsala á utanlandsferðum en sólarþyrstir íslendingar veigra sér ekki við að flýja rigninguna og rokið, þó það sé einungis í skamman tíma. Þó er veðurspáin ekki svona slæm um allt land. Austurlandið hefur notið sólar og hita undanfarið og reykvíkingar sem eru ekki á því að skella sér erlendis þetta sumarið hafa sett stefnuna á austurland til að fá smá D-vítamín í kroppinn.

 

Þetta veðurfar er þó ekki einsdæmi. Íslendingar hafa upplifað mörg slík sumur og það er eflaust hægt að fullyrða að þau verði fleiri í framtíðinni. Íslenskt veðurfar er óútreiknanlegt og því er mikilvægt að búa sig undir hvaða veðurfar sem er. Ekki treysta á að það verði sól og blíða í júlí eða yndislegt vorveður í apríl. Þú getur átt von á snjókomu um mitt sumar eða 15 gráðu hita um miðjan desember. Búðu þig undir hvað sem er.

Bjartsýnir íslendingar halda þó í vonina um að sólin muni láta sjá sig fljótlega. En þangað til mælum við með að gestir landsins sem og heimamenn dragi upp regnstakkinn og vindjakkann og njóti alls sem Reykjavík hefur upp á að bjóða.

Related Posts