Poppkorn ný ofurfæða

Ertu hrifinn af poppkorni? Finnst þér ómissandi að fá þér popp yfir bíómynd að kvöldi til eða þegar þú ferð í bíó? Þá ættu þessar fréttir að gleðja þig en nú hafa vísindamenn sýnt fram á að poppkorn er mun hollara en áður var talið. Það vill svo skemmtilega til að þetta vinsæla “snakk” inniheldur meira af andoxunarefnum en margt af því grænmeti og ávöxtum sem þjálfarar og heilsugúrúar eru að ráðleggja fólki að borða.

Jon Vinson, prófessor við University of Scranton stýrði rannsókninni á poppinu sem leiddi í ljós að poppkorn er óunnið heilkorn og aðeins einn skammtur af poppi getur innihaldið um 70% af ráðlögðum dagsskammti af heilkorni. Þar að auki er mikið af andoxunarefnum í poppinu. Það sem kom vísindamönnum kannski mest á óvart í rannsókninni var hversu mikið magn af pólýfenól er í maísbaunum. Pólýfenól er eitt af andoxunarefnunum sem notuð eru í matvæli og drykki til að reyna að bæta heilsu neytenda og sporna við sjúkdómum á borð við krabbamein og hjartasjúkdóma.

Pólýfenól er meðal annars hægt að finna í rauðvíni, humlum og ávöxtum en þó er virkni andoxunarefnisins virkast í poppkorni. Sökum alls þess vökva sem er í ávöxtum missir pólýfenólið eiginleika sína en maískorn, poppuð eða ekki, innihalda aðeins 4 prósent af vatni. Svenske Dagbladet vill meina að poppkorn sé komið í hóp svokallaðs ofurfæðis og ætti það að gleðja marga. Þess má geta að mesta innihald pólýfenóls er í skelinni sem festist iðulega í tönnunum neytanda en ekki hvíta hluta poppkornsins.

Kæru lesendur, nú getið þið fengið ykkur skál af poppi í stofunni heima eða í bíó með góðri samvisku enda eruð þið að láta hollustuvöru inn fyrir ykkar varir. Munið þó að nota ekki ofgnótt af salti, smjöri eða olíu á poppið, þá er hollustan lítil sem engin. Verði ykkur að góðu.

Related Posts