Íslenskt næturlíf hefur löngum verið talið villt og skemmtilegt og hefur verið lofað af ferðamönnum jafnt sem íslendingum. Reykvíkingar, og íslendingar almennt, eru skemmtanaglaðir og veigra sér ekki við að skella sér út á lífið. Þá er úr nægu að velja.

Skemmtistaðir bæjarins eru flestir staðsettir í miðborg Reykjavíkur. Allir eru þeir í göngufæri hver við annan og eru næturgestir bæjarins því iðulega á flakki á milli skemmtistaða. Þó að mesta næturlífið sé um helgar þá eru íslendingar byrjaðir að fara meira á bari á virkum dögum, sér í lagi á fimmtudags- og sunnudagskvöldum. Frá sunnudegi til fimmtudags eru barir miðbæjarins opnir til kl. 01:00 en um helgar eru margir skemmtistaðir og barir opnir til kl. 04:30-05:30.

Skemmtanalíf íslendinga er eflaust ekki eins og víðast hvar annars staðar. Hinn almenni íslendingur byrjar kvöldið á partýi, veislu eða góðu kvöldi með vinum í heimahúsi og fer yfirleitt ekki í bæinn fyrr en klukkan er að nálgast 01:30-02:00. Komir þú í bæinn mikið fyrir þann tíma, svo ekki sé talað um fyrir miðnætti, munt þú eflaust ganga inn á hálftóma bari og dansstaði. Komirðu á “íslenskum djammtíma” þá muntu eflaust hitta vel hressa og spjallglaða íslendinga.

Þó að Reykjavík sé ekki stór borg þá er næturlífið fjölbreytilegt. Miðbærinn fyllist af skemmtanaglöðu fólki sem hefur engar hömlur þegar kemur að því að hafa gaman. Ekki kippa þér upp við það að einhverjir hoppi upp á borð í trylltum dansi, það er partur af þessu öllu. Er þetta ekki nóg? Prófaðu þá að fara út á lífið þegar það eru hátíðir eins og Gleðigangan eða þá á gamlárskvöld. Þá er öruggt að þú munt hitta syngjandi og glaða nátthrafna í alls kyns búningum og múnderingum, sem eru tilbúnir til að skemmta sér fram á næsta dag.

Næturlíf Reykjavíkur er stórskemmtileg upplifun sem er fyrir alla hressa og dansglaða gesti bæjarins.