Fjórar af fallegustu gönguleiðum í Reykjavík

Reykvíkingar eru margir hverjir miklir göngugarpar og njóta þess að ganga í fallegu og náttúrulegu umhverfi í Reykjavík og nágreni. Ef þú ert að íhuga að fara í göngu þá eru hér nokkrar uppástungur.

Öskjuhlíð er fallegt svæði með ýmsum gönguleiðum en Öskjuhlíðin er stór partur af opnum svæðum sem tengjast frá Tjörninni um Öskjuhlíð, Fossvogsdal, Elliðaárdal og alla leið upp í Heiðmörk. Í Öskjuhlíðinni er að finna sögulegar minjar frá búskap á svæðinu og svo er stutt að ganga til Perlunnar og til strandarinnar í Nauthólsvík. Það er vel þess virði að eyða degi á svæðinu og njóta þess sem þar ber fyrir augum.

Sértu hrifinn af fjallgöngum er Esjan ekki langt undan. Esjan er 914 metra hátt blágrýtisfjall og hefur verið vinsæll áfangastaður fyrir útivistafólk og hlaupagarpa. Á Esjunni eru fjölmargar gönguleiðir jafnt fyrir vana sem óvana og því á færi flestra að skella sér í göngu eða hlaup á Esjuna.

Elliðaárdalurinn er demantur í Reykjavík og er aðgengileg öllum sem vilja njóta einstakrar náttúru í borginni. Dalurinn nýtur verndar borgarinnar vegna einstaks náttúrufars og útivistamöguleika og einnig eru friðlýstar minjar á svæðinu. Lengd dalsins er um það bil 6 kílómetrar og því tilvalinn í langar eða stuttar göngur. Auðvelt er að taka strætó frá miðbænum sem stoppar í Mjóddinni í Breiðholti og þá er stuttur spölur í dalinn.

Heiðmörk dregur nafn sitt af Hedmark í Noregi og var gert að friðlandi Reykvíkinga árið 1950 og dregur nafn sitt af Hedmark. Það var þáverandi skógræktarstjóri, Hákon Bjarnason, sem stakk fyrst upp á að Heiðmörk yrði nýtt sem útivistarsvæði. Heiðmörk er stærsta útivistasvæði í nágreni Reykjavíkur og hefur notið mikilla vinsælda á meðal göngufólks, hestamanna og hins almenna borgara sem langar bara að fara í rólegan göngutúr eða bíltúr um svæðið. Við mælum með að taka góða göngu á svæðinu og njóta stórkostlegrar náttúru Heiðmarkar.

Related Posts