Náttúra Íslands er ekki einungis einstök og falleg hún getur einnig berið mjög viðkvæm og þarf að umgangast hana með nærgætni. Þó kemur það fyrir að ferðamenn átti sig ekki á reglunum eða hreinlega virða ekki skilti sem benda fólki á hinar ýmsu reglur um íslenska náttúru. Þýskir ferðamenn á sérhönnuðum fjallabíl voru stöðvaðir nýverið af landvörðum í Nýjadal vegna meints utanvegaaksturs frá Laugafelli niður að Nýjadal. Leiðsögumaður sem hafði gist á sama stað og ferðamennirnir í Laugafelli nóttina áður lét vita af hjólförum utan vegar á löngum köflum og pössuðu förin við bíl þjóðverjanna. Mennirnir játuðu að þeir keyrðu við hlið vegarins fyrir en þeir töldu ekki að um utanvegaakstur hafi verið að ræða.
Ólafur Schram, umræddur leiðsögumaður fór daginn eftir niður Skagfirðingaleið að Nýjadal og sá þá hjólförin utan vegarins. Segir Ólafur að hann sé orðinn nokkuð viss í svona málum og að hann þekki orðið munstrið á Unimog bílum. Hafi hjólförin utan vegarins verið sama breyddin og á dekkjunum.
Ólafur hefur áður komið að því að upplýsa lík mál og þetta og kom hann meðal annars að máli fyrr í sumar þar sem ferðamenn voru að keyra utan vegar við Fjallsárlón. Segir Ólafur að það þurfi að gera meira til að koma í veg fyrir slík náttúruspjöll sem akstur utan vegar getur valdið. „Ég vil hafa miklu strangari reglur og að geta vísað fólki úr landi sem þetta gerir,“ segir hann. Þannig þurfi sektir og viðurlög að hafa áhrif á þá sem valda slíkum spjöllum. Ólafur segir einnig að miðað við þær sektir sem séu í utanvegaakstursmálum þá sé líklegast að hafa áhrif á gerendur með því að upplýsa hverjir þeir eru. Þannig gæti verið möguleiki á að jeppaklúbbar sem gerendur tilheyri erlendis vilji ekki tengja sig við ökumenn sem hafa valdið skemmdum á náttúru Íslands.
Því hvetjum við ferðamenn sem eru á jeppaferðalögum á Íslandi að kynna sér reglur hverju sinni svo þeir lendi ekki í vandræðum.