Ertu í hátíðarstuði? Þá viltu ekki missa af þessum hátíðum í Reykjavík.

Matarhátíð Alþýðunnar, eða Reykjavík Bacon Festival, er bráðskemmtileg matarhátíð tileinkuð baconi og er árlegur viðburður. Hátíðin fer fram á Skólavörðustíg í miðbæ Reykjavíkur og þar færðu tækifæri til að smakka alls kyns rétti með bacon í aðalhlutverki. Skólavörðustígur verður þakinn veitingatjöldum þar sem alls kyns réttir og drykkir verða í boði. Leiktæki fyrir krakka, fjölbreytt skemmtiatriði og lifandi tónlist mun skemmta gestum hátíðarinnar og einnig verða sölutjöld á staðnum sem munu selja alls kyns varning tengdan Matarhátíðinni. Frábær hátíð fyrir alla fjölskylduna og bacon aðdáendur.

Menningarnótt er hátíð sem enginn má missa af. Miðborgin iðar af lífi, menningu, listum og tónlist frá morgni til kvölds. Hvert sem þú snýrð þér blasir nýr viðburður við þér. Tugir tónleika og leiksýninga eru á dagskrá, frítt er inn á öll söfn og sýningar borgarinnar og strætó kostar ekki krónu þennan dag. Sú skemmtilega hefð hefur skapast í gegnum árin að nokkrir íbúar opna heimili sín fyrir gestum og gangandi í vöfflur og kaffi. Rúsínan í pylsuendanum er flugeldasýningin við hafnarbakkann sem er lokaatriði hátíðarinnar. Ekki missa af menningarnótt í Reykjavík.

Vetrarhátíð í Reykjavík hefur verið kölluð hátíð ljóss og myrkurs og nær hún yfir allt höfuðborgarsvæðið. Fjöldi listamanna tekur þátt í að skapa einstaka stemningu á viðburðum um allan bæ. Vetrarhátíðin samanstendur af fjórum meginstoðum, sundlauganótt, safnanótt, snjófögnuði og ljósalist og verður boðið upp á alls kyns uppákomur á öllum vettvöngum. Nokkrir tugir valdra bygginga verða upplýstar með einkennislitum hátíðarinnar og setur það óneitanlega skemmtilegan svip á borgina. Skemmtileg lista og menningarhátíð sem kemur verulega á óvart.

Hestadagar eru haldnir í maí og það er eini dagur ársins þar sem íslenskir hestar eru sjáanlegir í miðbæ Reykjavíkur. Skrúðreið er farin frá Hallgrímskirkju og endar á Austurvelli þar sem gestum og gangandi gefst tækifæri á að kynnast hestunum og knöpum þeirra. Reiðhallir á höfuðborgarsvæðinu eru uppákomur tengdar deginum, meðal annars fjölskylduskemmtanir og reiðsýningar. Ómissandi hátíð fyrir hestaáhugamenn.