Viltu taka skemmtidag með fjölskyldunni? Í Reykjavík er margt að finna sér til afþreyingar og það á einnig við um yngstu miðlimi fjölskyldunnar. Hvort sem þú og fjölskylda þín eruð að ferðast að sumri til eða um vetur þá er alltaf eitthvað skemmtilegt í boði fyrir þig og þína.

Sundlaugar Reykjavíkur eru fjölmargar og því er tilvalið að skella sér í eina slíka með krökkunum. Reykjavík státar ekki af neinum rennibrautagörðum en þó eru nokkrar sundlaugar sem eru með rennibrautir fyrir börnin. Sund með krökkunum klikkar ekki. Þú finnur sundlaugar í öllum hverfum Reykjavíkur.

Í Grafarvogi er Skemmtigarðurinn en þar er næg afþreying fyrir alla fjölskylduna. Í Skemmtigarðinum finnurðu minigolf, lasertag og frisbígolf svo fátt eitt sé nefnt. Þarna getur öll fjölskyldan fundið eitthvað skemmtilegt við sitt hæfi og notið dagsins.

Fyrir dýravini er Húsdýragarðurinn tilvalinn en þar er að finna íslensku húsdýrin sem og villt spendýr. Dýrin eru sérstaklega kynnt fyrir gestum garðsins yfir daginn og börnum býðst að prófa að fara á hestbak. Húsdýragarðurinn er ekki einungis dýragarður, því þar er einnig að finna Fjölskyldugarðinn sem er fullur af leiktækjum og afþreyingu fyrir fjölskylduna. Öll fjölskyldan mun njóta sín í þessum skemmtilega garði. Húsdýragarðurinn er í um það bil tveggja kílómetra fjarlægð frá Hlemmi og því í göngufæri frá miðbænum. Beint á móti Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum er Skautahöllin sem býður upp á skautaleigu og góða skautaaðstöðu. Skautahöllin er lokuð á sumrin en sértu á flandri í Reykjavík frá september til maí þá er tilvalið að skella sér á skauta.

Eru hestaáhugamenn í fjölskyldunni? Þá er tilvalið að skella sér á bak á íslenskum hesti. Í Mosfellsbæ er Laxnes Horse Farm þar sem boðið er upp á 2-8 tíma reiðtúra, og blandaðar ferðir þar sem þú getur til dæmis farið ríðandi um Gullna hringinn eða í hvalaskoðun. Laxnes býður einnig upp á ævintýralega hjólreiðatúra um Þingvelli og Esju. Eitt er víst að fjölskyldan mun geta notið dagsins hjá Laxnes Horse Farm.